Tuesday, September 15, 2009

Ég er í Berlín. Ég er komin. Árið er byrjað.

Það er að byrja að hausta og laufin hrynja bráðum af trjánum. Ég nánast stend undir þeim og bíð.

Ég er byrjuð í þýskuskólanum. Alla daga frá 9 - 13 sit ég og segi hvað ég heiti, hvaðan ég kem og tel upp á 100. Vonandi læri ég að panta mér tee í þessari viku. Þá fyrst get ég farið að nota vitneskju mína í eitthvað nytsamlegt.

Í skólanum mínum eru fyndnir karakterar -

HÜLYA - Það er fimmtuga konan frá Mexico sem þykist vita betur en aðrir, þótt að hún skilji eiginlega ekki orð. En hún er örugglega vön að vita betur en aðrir, þannig að við leyfum henni að halda það. Hún er líka alltaf hlægjandi. Enginn veit afhverju, svo slær hún uppúr þurru í öxlina á Hussein og hlær ennþá hærra.

VADIM & TATYANA - Par frá Rússlandi, þau labba aldrei neitt. Þau eru alltaf hlaupandi, það þykir mér óviðráðanlega fyndið. Jafnvel þótt að þau séu alls ekkert sein, þá eru þau alltaf hlaupandi á milli staða. Hún er pínu klár, en hann virðist sannfærður um að hún sé það ekki því hann er alltaf að leiðrétta hana - vitlaust! Hann meira að segja leiðrétti hana þegar hún var að gefa upp símanúmerið sitt, nema að hún var ekki að segja það vitlaust.

TYLER - Fyndinn strákur frá Kanada. Hann sagði mér að hann væri búinn að vinna fyrir sér sem málari síðustu 4 ár og mér fannst það geggjað. Talaði mikið um hvað það væri amazing og sagði honum að það væri áhugamál hjá mér. Hann hló að því. Ég skildi afhverju viku seinna, hann er húsmálari ekki listmálari. Hann heldur að áhugamálið mitt sé að mála hús.

HOÜSSEN - Hann er einfaldlega það besta við þessa tíma. Hann er frá Líbanon og kann ekki stakt orð í þýsku og örlitla ensku. Hann heldur alltaf að það sé verið að tala við sig. Hann gerir allavega allt með öllum. Þegar tveir eiga að lesa samtal, þá les hann með báðum aðilum. Þegar einhver á að fara upp á töflu til að skrifa eitthvað, þá töltir Houssein á eftir og skrifar líka. - Og allir hlægja, en hann skilur ekki ennþá hugmyndafræðina á bakvið þetta allt saman.

JENNY BUKA - Jenny er eiginlega ástæðan fyrir því að mig langar ekki í skólann á morgnanna. Jenny er módel sem hefur búið út um allan heim og er leikkona til viðbótar. Ég vil eiginlega ekki segja meira um hana. Það gerir mig þunglynda. Nb. Hún er ca. tveir metrar og 33kg. Ég er eins og dvergvaxinn glímukappi við hliðina á henni.

JANAR - Kona, frá Kasakstan. Ég get ekki að því gert, ég fer alltaf að hlægja þegar hún segir hvaðan hún kemur. Ich Heiße Janar, Ich komme aus Kasakstan. Hún er fertug kona og er betri en við öll. Ég held að hún læri heima. Við hin ættum kannski að taka hana til fyrirmyndar.

ANNIE - ER FRÁBÆR. Hún er kínversk stelpa sem skilur ekki orð, ég held að hún viti ekki ennþá hvað neitt þýðir. Við getum ekki einu sinni reynt að útskýra fyrir henni, afþví að hún kann ekki eitt einasta orð í ensku heldur. Hún mætir samt, brjálæðislega hress á hverjum einasta morgni, alltaf með auka kexpakka til að gefa öllum bekknum. Hún er alltaf með "Mjallhvít og dvergarnir sjö" hitabrúsa með mjólk í. Svo á hálftíma fresti hellir hún mjólk í tappann, og sötrar. Hún er frábær.


Þau eru fleiri og skrautlegri. Áframhald síðar.

Ég er farin út að leika við sólina.

- Berlínd.