Tuesday, June 4, 2013

Beelitz Heilstätten

Beelitz-Heilstätten er líklegast einn sá fallegasti en jafnframt drungalegasti staður sem ég hef eytt tíma á. Verandi gríðalega draugahrædd þá eru yfirgefin hersjúkrahús ekki ákjósanlegur staður fyrir sunnudagsrölt en ótrúlegt en satt þá er tilfinningin þarna friðsæl. Ég lýg ekki, auðvitað fékk ég stundum hroll og kaldan svita á ennið (og á öðrum stöðum), en fegurðin í eymdinni vann á hræðslunni.

Byggingarnar hafa staðið auðar síðan 2000. Þær eru staðsettar um það bil klukkutíma fyrir utan Berlín. Vorið 2010 var ennþá hægt að valsa inn og út án nokkurra vandræða en nú er víst búið að girða allt svæðið af og verðir sem meina forvitnum sálum inngöngu.

Myndirnar eru teknar í mismunandi byggingum en því miður fundum við ekki skurðstofuna. Þar eru víst ennþá sjúkrarúmin, ljósin og margt annað sem fylgir.